Fundargerð aðalfundar Fornleifafræðingafélags Íslands

Fundargerð aðalfundar Fornleifafræðingafélags Íslands

28.12.2011

 

Mættir eru: Björk Magnúsdóttir, Sindri Ellertsson Csillag, Albína Hulda Pálsdóttir, Ármann Guðmundsson, Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson, Sandra Sif Einarsdóttir, Ásta Hermannsdóttir, Guðbjörg Melsted, Dagný Arnarsdóttir, Inga Hlín Valdimarsdóttir og Óskar Leifur Arnarson.

 

 

1.       Inntaka nýrra félaga

Fyrir lágu umsóknir frá sex einstaklingum um inngöngu í félagið sem aukafélagar og frá einum aukafélaga um að verða aðalfélagi. Jakob Orri Jónsson, Sindri Garðarsson, Gísli Pálsson, Sigurjóna Guðnadóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Arnar Logi Björnsson sóttu um aðild að félaginu sem aukafélagar og voru öll samþykkt. Þau leggja öll stund á BA- eða MA-nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Ármann Guðmundsson hafði lagt fram gögn um mastersgráðu í fornleifafræði og var samþykktur sem aðalfélagi.

 

2.       Skýrsla stjórnar

Sindri Ellertsson Csillag flutti skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á árinu. Nokkrar umræður sköpuðust um skýrsluna, mest um hvað leggja skyldi áherslu á í starfsemi félagsins á árinu 2012 svo sem umfjöllun um ný menningarminjalög, fjárveitingar til fornleifarannsókna, friðlýstar fornleifar og fleira. Í tengslum við umræður um ný menningarminjalög komu eftirfarandi hugmyndir fram

·         Hafa stóran fund með Félagi íslenskra fornleifafræðinga og bjóða mennta- og menningarmálaráðherra, starfsmönnum Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem sömdu lögin, þingmönnum, sérstaklega úr Allsherjar- og menntamálanefnd og fleirum

·         Félagsmenn skrifi greinar í blöð

·         Hafa samband við fjölmiðla og fá þá til að fjalla um málið

·         Ræða við þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd

 

3.       Ársreikningur 2011

Björk Magnúsdóttir gjaldkeri lagði fram ársreikning Fornleifafræðingafélags Íslands, undirritaður af endurskoðendum félagsins, til samþykktar fundar. Staða félagsins er ágæt, töluvert fé er í sjóði en áætlað er að það verði nýtt snemma á árinu 2012 til útgáfu Ólafíu. Athygli vakti hve lítið kemur í sjóði félagsins í gegnum félagsgjöld og var ákveðið að taka frekari umræðu um það mál undir dagskrárliðnum Önnur mál síðar á fundinum.

Ársreikningurinn var samþykktur einróma af fundarmönnum.

 

4.       Tillaga að lagabreytingu

Stjórn lagði fram tillögu um smávægilega breytingu á 9. grein í lögum félagsins. Breytingin var samþykkt einróma með fyrirvara um að styrktarsjóður Ólafíu Einarsdóttur yrði stofnaður árið 2012, ef svo verður ekki fellur breytingin niður. Er greinin svo hljóðandi eftir breytingu:

 

9. grein

                Fornleifafræðingafélag Íslands gefur út ritið Ólafíu. Stefnt skal að útgáfu þess einu sinni á ári. Hvert hefti er tileinkað ákveðnu þema og birtir efni því tengdu í formi fræðigreina eða ritgerða. Ritstjóri hvers heftis er kosinn á aðalfundi hvert ár auk tveggja fulltrúa í ritnefnd sem verða ritstjóra innan handar við útgáfu heftisins. Ritið skal vera ritrýnt þegar þema þess miðast við birtingu stakra greina, sem ekki hafa verið gefnar út áður. Stefnan með útgáfu Ólafíu er að gefa fólki kost á að lesa öflugt og vandað fræðirit um fornleifafræði. Efni þess skal að öllu jöfnu vera ritað á íslensku til þess að skapa hefð fyrir notkun hugtaka í fornleifafræði á íslensku. Heimilt er að birta greinar í því á öðrum tungumálum. Ólafía er gefin út fyrir fé úr styrktarsjóði Ólafíu Einarsdóttur, sjálfsaflafé í formi styrkja, sölutekna og annarra framlaga.

 

5.       Kosningar í stjórn FFÍ 2012-2013

Sindri Ellertsson Csillag núverandi formaður FFÍ gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Hann lagði fram tillögu um að kjör stjórnarmanna færi fram með handauppréttingu og var það samþykkt einróma. Minnt er á að formaður félagsins verður að vera aðalfélagi en aukafélagar mega sitja í öðrum stjórnarstöðum en þó aldrei vera fjölmennari en aðalfélagar í stjórn félagsins.

a.       Ármann Guðmundsson, aðalfélagi, býður sig fram til formanns. Hann er kosinn einróma með 6 atkvæðum aðalfélaga á fundinum.

b.      Björk Magnúsdóttir, aukafélagi, býður sig aftur fram til gjaldkera. Hún er kosin einróma.

c.       Albína Hulda Pálsdóttir, aðalfélagi, býður sig aftur fram til ritara. Hún er kosin einróma.

d.      Varaformaður, verður einnig að vera aðalfélagi, Dr. Bjarni F. Einarsson gefur kost á sér aftur og er kosinn einróma.

e.      Vala Björg Garðarsdóttir, aðalfélagi og varamaður í stjórn 2011, og Ásta Hermannsdóttir, aukafélagi, bjóða sig fram sem varamenn og eru kosnar einróma.

f.        Sindri Ellertsson Csillag býður sig fram sem formann siðanefndar FFÍ og er kosinn einróma. Dagný Arnarsdóttir, aukafélagi, býður sig fram aftur til setu í siðanefnd og er kosin einróma. Kristján Mímisson, aðalfélagi, býður sig einnig fram og er kosinn.

g.       Endurskoðendur, Sandra Sif Einarsdóttir og Guðbjörg Melsted endurkjörnar.

 

6.       Kosning fyrir Ólafíu V. hefti

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir hefur sagt sig frá ritstjórn IV. og V. heftis Ólafíu. Því þarf að finna nýjan ritstjóra að V. hefti sem ákveðið var á síðasta aðalfundi að myndi fjalla um tímatalsfræði. Nýrri stjórn er farið að leysa mál IV. heftis, sem bíður útgáfu, í samráði við ritstjóra og ritnefnd V. heftis Ólafíu.

a.       Kristján Mímisson, aðalfélagi, býður sig fram til að vera ritstjóri fyrir V. hefti Ólafíu og er kosinn. Efnið er áfram Tímatalsfræði líkt og samþykkt var á síðasta aðalfundi.

b.      Albína Hulda Pálsdóttir, aðalfélagi og Inga Hlín Valdimarsdóttir, aukafélagi, bjóða sig fram til setu í ritnefnd V. heftis Ólafíu og eru kosnar einróma.

 

7.       Tillaga að nýrri kápu á Ólafíu

Stjórn lagði fram tillögu um nýtt útlit á kápu tímaritsins Ólafíu sem verið er að vinna á auglýsingastofunni EnnEmm. Almenn ánægja með nýja kápu og nýrri stjórn er falið að halda áfram að vinna með þær tillögur. Stefnt er að því að IV. hefti Ólafíu komi út í janúar eða febrúar. Albína Hulda Pálsdóttir er að klára frágang á því og Dr. Ólafía Einarsdóttir hefur veitt félaginu myndarlegan styrk til endurhönnunar á kápunni.

 

8.       Tillaga um innheimtu félagsgjalda með seðli í heimabanka

 

          Lagt er til að félagsgjöld verði innheimt í gegnum heimabanka og verði innheimt sem valgreiðsla en þó eru engir dráttarvextir sem reiknast ef félagsmaður velur að greiða ekki kröfuna.

          Kostnaður við innheimtu í heimabanka er samtals 115 kr. á hverja kröfu en á móti því gætu heimtur félagsgjalda orðið betri. Af 50 einstaklingum í félaginu hafa 16 greitt félagsgjöld það sem af er árinu 2011.

          Ákveðið var að hækka félagsgjöld aðalfélaga í 3000 kr og aukafélaga í 1500 kr.

 

9.       Drög að ályktun I

 

Fornleifafræðingafélag Íslands gagnrýnir harðlega að leggja eigi fram frumvarp um menningarminjar á vorþingi Alþingis 2012 nánast óbreytt frá vorþingi 2011 en margar og mjög alvarlegar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið þá sem ekkert tillit hefur verið tekið til. Fornleifafræðingafélag Íslands hafnar því alfarið að frumvarpið verði að lögum í núverandi mynd. Jafnframt gagnrýnir félagið þau vinnubrögð sem höfð voru við samningu þessa frumvarps en nánast ekkert samráð var haft við fagaðila í fornleifafræði við samningu þess. Lög um menningarminjar eru lög um starfsvettvang fornleifafræðinga og því er sjálfsagt og eðlilegt að athugasemdir Fornleifafræðingafélags Íslands og annarra fagaðila á sviði fornleifafræði séu teknar til greina.

 

Samþykkt á Aðalfundi Fornleifafræðingafélag Íslands 28.12.2011.

 

Þessi ályktun er samþykkt samhljóða, upp úr þessu verður þetta sent í blöðin og til allra þingmanna.

 

Í sambandi við þetta kom fram hugmynd um að fara fram á rökstuðning frá Menningar- og menntamálaráðuneytinu um af hverju ekki er tekið tillit til athugasemda félagsins og annarra sem gerðu athugasemdir.

Sterkasta vopnið er herferð til að vekja athygli á stöðunni.

Koma þarf á fundi með FÍF um málið mjög fljótt.

Tryggja að félagsmenn viti hver staðan með nýju menningarminjalögin er.

 

10.   Drög að ályktun II

 

Fornleifafræðingafélag Íslands fer þess á leit við Fornleifavernd ríkisins að upplýsa félagsmenn um stöðu friðlýstra fornleifa á Íslandi og hver stefna embættisins sé varðandi friðlýstar fornminjar, t.d. með opnum fyrirlestri þar sem starfsmenn Fornleifaverndar ríkisins færu yfir hversu mikið af friðlýstum fornleifum hefðu verið endurskoðaðar og hvort tilefni sé til að endurmeta friðlýsingu á einhverjum þeirra. Fornleifafræðingafélag Íslands vill jafnframt skora á Fornleifavernd ríkisins að birta upplýsingar um uppgraftarleyfi veitt sumarið 2011 hið allra fyrsta á heimasíðu sinni. Jafnframt þætti félaginu eðlilegt að á heimasíðu Fornleifaverndar ríkisins birtist einnig upplýsingar um þær umsóknir sem synjað er um leyfi til fornleifarannsókna sem og aðrar leyfisveitingar, t.a.m. þegar leyfi er gefið til framkvæmda á eða við friðlýstar fornleifar.

 

Ákveðið að fresta þessari ályktun vegna svars frá Fornleifavernd ríkisins við bréfi okkar frá 24. nóvember 2011.

 

11.   Drög að ályktun III

 

Fornleifafræðingafélag Íslands mótmælir harðlega niðurskurði á fjárveitingum til fornleifarannsókna á milli áranna 2011 og 2012. Á fjárlögum fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að fjárframlag til fornleifarannsókna minnki umtalsvert, fari úr 46,9 m.kr. í 32,9 m.kr. sem er skerðing upp á tæp 30%. Félagið hefur fullan skilning á niðurskurðarkröfu ríkisins og er sammála þeirri reglu sem farin er í fjárlagafrumvarpi 2012 að styrkja eingöngu Fornleifasjóð sem er vísindalegur samkeppnissjóður. 30% niðurskurður á milli ára er þó mun meiri heldur en aðrar fræðigreinar þurfa að búa við. Aðeins með því að efla fornleifasjóð til muna verður fræðigreininni og því sem hún skilar til samfélagsins forðað frá glötun.

 

Samþykkt á Aðalfundi Fornleifafræðingafélag Íslands 28.12.2011.

 

12.   Önnur mál

Kristján Mímisson: Í apríl 2013 verður NordicTAG haldin á Íslandi. Áhugi er fyrir að gefa út Conference Proceedings í tengslum við ráðstefnuna og möguleiki væri að gera það í samvinnu við Ólafíu, þetta hefti kæmist líklega í fyrsta lagið árið 2014. Þetta verkefni yrði mun stærra en venjuleg Ólafía og þyrfti mun meira fjármagn. Þetta mál verði falið stjórn. Steinunn er ábyrgðarmaður fyrir ráðstefnunni og Kristján Mímisson er verkefnisstjóri. Þegar hefur fengist vænn styrkur til ráðstefnunnar. Kristján stingur upp á að félagið verði hugsanlega með málstofu eða slíkt. Titill ráðstefnunnar er: Borders, margins, fringes.

Sindri Ellertsson Csillag: Heimsókn fræðimanns

Hugmyndir um hvern ætti að reyna að hafa samband við, ákveðið að leggja höfuðið í bleyti, Sindri nefnir Sian Jones, Bjarni nefnir Dagfinn Skre en hann er alltaf á Íslandi. Kosturinn við Dagfinn er að líklega væri hægt að fá hann með litlum tilkostnaði. Hugmynd að bjóða Christian Christiansen og Lynn Meskel, höfundi Cosmopolitan Archaeologies.

Sótt hefur verið um styrk til Menningar- og menntamálaráðuneytisins vegna heimsóknar fræðimanns.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

The Archaeology Graduate Seminar Series

The newly established Graduate Research Seminar is organised by post-graduates from the Department of Archaeology to discuss a wide array of different topics and promote new research in Icelandic archaeology. Selected topics will be debated bi-weekly through lectures, case studies and question & answer sessions. Anyone interested is welcome and encouraged to attend the seminar. A detailed programme of the seminar will be available soon.

Location: Room G 301 in Gimli (on University Campus), Sæmundargötu 10


Time: bi-weekly on Thursdays, 5:30 – 6:30 pm

Organised by: Janis Mitchell (jkm3@hi.is) and Nikola Trbojevic (nit2@hi.is)

First lecture:

January 19th 2012:
Adolf Friðriksson – ‘The quest for Vinland: Kristján Eldjárn’s curious voyage to the West’


Gildi loftmynda í fornleifarannsóknum

Meistarafyrirlestur í landfræði

Gildi loftmynda í fornleifarannsóknum
15. desember klukkan 15:00, Oddi, stofa 101

Lilja Laufey Davíðsdóttir

Rannsóknir sýna að innrauðar litloftmyndir hafa yfirburði yfir aðrar gerðir loftmynda.
Þrátt fyrir það hafa þær lítið verið notaðar í fornleifarannsóknum og gildi þeirra nánast ekkert verið kannað.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða möguleika innrauðra mynda fyrir fornleifarannsóknir og til samanburðar voru notaðar venjulegar litloftmyndir.

Niðurstöður sýndu að ekki aðeins voru innrauðar litloftmyndir betri til að koma auga á fornminjar, hvort sem um er að ræða minjar sem áður hafa fundist á vettvangi, þær sem ekki hafa verið staðsettar eða alls óþekktar minjar, heldur nýttust þær einnig til þess að túlka hlutverk fornminja og til að skoða breytingar á búsetumynstri.

Leiðbeinendur: Guðrún Gísladóttir prófessor og Ragnheiður Traustadóttir aðjúnkt og stjórnandi Hólarannsóknarinnar.

Prófdómari/fulltrúi deildar: Ingibjörg Jónsdóttir dósent


http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlesturgildi_loftmynda_i_fornleifarannsoknum


Aðalfundur Fornleifafræðingafélags Íslands 2011

Aðalfundur Fornleifafræðingafélags Íslands verður haldinn miðvikudaginn 28. desember 2011, kl. 16:00 í herbergi 309 á 3ju hæð í Gimli, Háskóla Íslands.


Dagskrá aðalfundar verður sem hér segir:


1)    skýrsla liðins árs

2)    lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins

3)    lagabreytingar. Tillögu að lagabreytingu má nálgast hér að neðan.

4)    inntaka nýrra félagsmanna

5)    kosning stjórnarmanna

6)   ályktanir bornar undir fundinn

7)   önnur mál

 
Stjórn FFÍ

 

Tillaga að lagabreytingum Fornleifafræðingafélags Íslands

Lögð fyrir aðalfund 2011


Lögð er til breyting á 6. grein laga FFÍ, sem fjallar um Ólafíu, rit félagsins. Lagt er til að stjórn hvers heftis verði í höndum ritstjóra auk tveggja ritnefndarmanna sem munu verða ritstjóra innan handar við útgáfu heftisins. Auk þessa er gert ráð fyrir yfirvofandi breytingu á fjármögnun heftisins.

Tillagan er svohljóðandi eftir breytingu:

Fornleifafræðingafélag Íslands gefur út ritið Ólafíu. Stefnt skal að útgáfu þess einu sinni ári. Hvert hefti er tileinkað ákveðnu þema og birtir efni því tengdu í formi fræðigreina eða ritgerða. Ritstjóri hvers heftis er kosinn á aðalfundi hvert ár auk tveggja fulltrúa í ritnefnd sem verða ritstjóra innan handar við útgáfu heftisins. Ritið skal vera ritrýnt þegar þema þess miðast við birtingu stakra greina, sem ekki hafa verið gefnar út áður. Stefnan með útgáfu Ólafíu er að gefa fólki kost á að lesa öflugt og vandað fræðirit um fornleifafræði. Efni þess skal að öllu jöfnu vera ritað á íslensku til þess að skapa hefð fyrir notkun hugtaka í fornleifafræði á íslensku. Heimilt er að birta greinar í því á öðrum tungum. Ólafía er gefin út fyrir fé úr styrktarsjóði Ólafíu Einarsdóttur, sjálfsaflafé í formi styrkja, sölutekna og annarra framlaga.

Aðalfundur FFÍ

Ágætu félagsmenn,

 
Nú líður að lokum árs og því er aðalfundur á næsta leiti. Viljum við því benda þeim sem hafa tillögur að lagabreytingum að koma þeim til stjórnar hið fyrsta svo hægt sé að auglýsa þær með aðalfundarboði.

Einnig er komið að innheimtu á félagsgjöldum fyrir þetta árið. Sem fyrr eru þau 2.000 kr. fyrir aðalfélaga og 1.000 kr. fyrir aukafélaga og skulu leggjast inn á reikning 0101-05-268166, kt. 510399-3159, með skýringunni gjöld.11.

Með kveðju,
Stjórnin

Mannvist - sýnisbók um fornleifar

Bókin Mannvist – sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur fornleifafræðing er komin út hjá Opnu.

Bókin opnar heim fornleifa fyrir leikum og lærðum. Birna og samverkamenn hennar settu sér það markmið að beina sjónarhorninu frá helstu sögustöðum og valdasetrum að hversdagslegri minjum um daglegt líf almennings. Fornar leifar á Íslandi er að finna á ólíklegustu stöðum úti um allt land og frá ýmsum aldursskeiðum því ekki eru allar fornleifar svo ýkja gamlar, samkvæmt skilgreiningu laganna er miðað við 100 ár. Bókin er búin fjöldamörgum ljósmyndum sem styðja við textann.

Birna Lárusdóttir er fornleifafræðingur og hefur starfað hjá Fornleifastofnun Íslands frá árinu 1999. Hún er aðalhöfundur þessa mikla verks og jafnframt ritstjóri þess. Aðrir höfundar efnis eru Adolf Friðriksson, Árni Hjartarson, Bjarni F. Einarsson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Guðmundur J. Guðmundsson, Hildur Gestsdóttir, Orri Vésteinsson og Þóra Pétursdóttir.

Umræðufundur um endurgerð, viðhald og varðveislu fornleifa

Fornleifavernd ríkisins boðar til fundar föstudaginn  6. janúar 2012, kl. 13.00 og verður umræðuefnið endurgerð, viðhald og varðveisla  fornleifa. Frummælandi verður Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins.
Þeir sem hafa áhuga á að sækja fundinn eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna sig á netfangið fornleifavernd@fornleifavernd.is. Stefnt er að því að halda fundinn hér í kjallaranum að Suðurgötu 39 í Reykjavík. Reynist þátttakan fjölmennari en fundarherbergið í kjallarnum ræður við, munum við flytja okkur um set og tilkynna nýjan fundarstað með góðum fyrirvara.
Vonumst eftir að sjá sem flesta,

Kristín Huld Sigurðardóttir PhD, MPA

Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins/General Director -  The Archaeological Heritage Agency of Iceland


Bréf til Fornleifaverndar ríkisins um stöðu friðlýsinga

Kristín Huld Sigurðardóttir

Fornleifavernd ríkisins

Suðurgötu 39

101 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 24. nóvember 2011

 

Efni: Friðlýstar fornleifar og leyfisveitingar

 

Nýlega boðaði Fornleifafræðingafélag Íslands (FFÍ) til almenns félagsfundar þar sem staða friðlýsinga var rædd. Fundarmenn urðu sammála um að stjórn félagsins leitaði  eftir upplýsingum hjá Fornleifavernd ríkisins um stöðu friðlýstra fornleifa á Íslandi og hver stefna embættisins sé varðandi friðlýstar fornminjar, t.d. með opnum fyrirlestri þar sem starfsmenn Fornleifaverndar ríkisins færu yfir hversu mikið af friðlýstum fornleifum hefðu verið endurskoðaðar og hvort tilefni sé til að endurmeta friðlýsingu á einhverjum þeirra.

Á fundinum barst einnig í tal umfjöllun fjölmiðla um framkvæmdir ofan á friðlýstum fornleifunum í Þorláksbúð í Skálholti og þá greindi Dr. Bjarni F. Einarsson frá nýlegri synjun Fornleifaverndar ríkisins á uppgraftarleyfi vegna könnunarskurða í friðlýstar fornleifar að Böðmóðstungu í Holti í Skaftárhreppi. Félagsmönnum þykir ekki eðlilegt að leyfi sé veitt til framkvæmda ofan á friðlýstum fornleifum í Skálholti á sama tíma og leyfi til töku könnunarskurðar til að kanna aldur friðlýstra fornleifa að Böðmóðstungu er synjað. Bygging tilgátuhúss sem ekki byggir á fornleifarannsóknum nema að litlu leyti er heimiluð en fornleifafræðingi, með doktorspróf í greininni og langa uppgraftarreynslu á Íslandi, er synjað um leyfi til könnunar á fornleifum sem eru í nokkurri hættu vegna ágangs vatns úr nærliggjandi á sem brýtur reglulega úr bökkum sínum. Ekki verður séð að hér sé gætt samræmis.

Félagið getur ekki séð að leyfið til framkvæmda við endurbyggingu Þorláksbúðar samræmist Þjóðminjalögum nr. 107 frá 2001, IV: kafla 10.-12. grein og lýsir jafnframt andstöðu sinni við framkvæmdirnar og leyfisveitingu Fornleifaverndar ríkisins.

Vegna ofangreindra mála vill FFÍ skora á Fornleifavernd ríkisins að birta upplýsingar um uppgraftarleyfi veitt sumarið 2011 hið allra fyrsta á heimasíðu sinni. Jafnframt þætti félaginu eðlilegt að á heimasíðu Fornleifaverndar ríkisins birtist einnig upplýsingar um þær umsóknir sem synjað er um leyfi til fornleifarannsókna sem og aðrar leyfisveitingar Fornleifaverndar ríkisins, t.a.m. þegar leyfi er gefið til framkvæmda á eða við friðlýstar fornleifar. Félagið skorar jafnframt á Fornleifavernd ríkisins að birta umsóknir um uppgraftarleyfi í heild sinni ásamt fylgigögnum á heimasíðu sinni og að birta á heimasíðu sinni þær skýrslur sem gerðar eru á vegum embættisins og starfsmanna þess.

 

 

 

Fyrir hönd Fornleifafræðingafélags Íslands

 

 

______________________________

Sindri Ellertsson Csillag

Formaður

 

Afrit:

Menningar- og menntamálaráðuneytið

 


Bréf FFÍ til Fjárlaganefndar Alþingis


Fjárlaganefnd Alþingis

Skrifstofa Alþingis, Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 24. nóvember 2011

 

Efni: Fjárveitingar til fornleifarannsókna á fjárlögum 2012.

 

Undirritaður, formaður Fornleifafræðingafélags Íslands, vill gera eina athugasemd við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012. Athugasemdirnar snerta annan kafla frumvarpsins sem fjallar um Mennta- og Menningarmálaráðuneytið, liði 901 og 983.

 

Ég vil gera þá athugasemd að heildarskerðing á fjármagni sem veitt er til fornleifarannsókna er 64% á milli áranna 2011 og 2012. Heildarfjárveiting til fornleifarannsókna fyrir árið 2011 var 46,9 m.kr. sem skiptust þannig að undir lið 983 Ýmis fræðastörf var veitt 17,2 m.kr. í Fornleifasjóð auk sérstakrar fjárveitingar vegna áframhaldandi rannsókna á Skriðuklaustri upp á 13,5 m.kr. Undir liðnum 901 Fornleifavernd ríkisins var veitt til ýmissa verkefna 16,2 m.kr. sem skiptust þannig: Byggðasafnið í Skagafirði, Tyrfingsstaðaverkefnið, 0,5 m.kr., Fornleifauppgröftur við Kolkuós, 2 m.kr., Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna, 2 m.kr., Fornleifarannsóknir á Hólum í Hjaltadal, 2 m.kr., Fornleifarannsóknir í Suður-Þingeyjarsýslu, 4 m.kr., Rannsóknir á menningarsögulegum minjum í Hringsdal, 1,2 m.kr., Reykjanesbær, fornleifarannsóknir í Höfnum, 1,2 m.kr., Úrvinnsla fornleifarannsókna í Skálholti, 2 m.kr. og Þorláksbúð í Skálholti, 1,2 m.kr.

 

Á fjárlögum fyrir árið 2012 er aðeins ráðgert að Fornleifasjóður standi eftir en hann mun skerðast um 0,4 m.kr. Heildarskerðing á fjármagni til fornleifarannsókna er því 30,1 m.kr. sem samsvarar skerðingu um 64%. Ég hef fullan skilning á niðurskurðarkröfu ríkisins og er sammála þeirri reglu sem farin er í fjárlagafrumvarpi 2011 að styrkja eingöngu Fornleifasjóð sem er vísindalegur samkeppnissjóður en ekki þau verkefni sem standa fyrir utan sjóðinn. Ráðgert er að ekkert verkefnanna undir liðnum 901 fái áframhaldandi fjárveitingu auk þess sem sérstök fjárveiting vegna fornleifarannsókna á Skriðuklaustri undir lið 983 dettur út. Fyrir hönd félagsins geri ég þá athugasemd að skerðing á fjármagni um 64% í heildina þýðir að mörg stöðugildi í fornleifafræði, sem sum hver eru algerlega háð þessum styrkjum, hverfa með fyrirsjáanlegu hruni fræðigreinarinnar og auknum kostnaði ríkisins í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.

 

Fullur skilningur er hjá fornleifafræðingum á því að fjármagn til rannsókna skerðist til að mæta markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum en 64% niðurskurður á milli ára er miklu meira heldur en aðrar fræðigreinar þurfa að búa við. Verði þessi skerðing að veruleika mun hún valda fræðigreininni skaða sem seint verður bættur. Nú er tækifæritil þess að efla Fornleifasjóð sem er eini samkeppnissjóður á Íslandi eyrnamerktur fornleifafræði. Með því að efla Fornleifasjóð er hægt að búa þannig um hnútana að hæfustu umsóknirnar, metnar á faglegum grundvelli, fái framgöngu. Aðeins þannig verður fræðigreininni og því sem hún skilar til samfélagsins forðað frá glötun.

 

 

 

Fyrir hönd Fornleifafræðingafélags Íslands

 

 

______________________________

Sindri Ellertsson Csillag

Formaður

 


Afmælismálþing Fornleifaverndar ríkisins: Fornleifavernd á Íslandi, kvöð eða kostur ?

Um þessar mundir eru tíu ár frá því að Fornleifavernd ríkisins hóf störf. Stofnunin stendur á tímamótum og mun væntanlega verða hluti nýrrar minjavörslustofnunar frá áramótum 2013.  Vegna afmælisins og tímamótanna blæs Fornleifaverndin til þings í salnum Yale, á 2. h. á Hótel Sögu föstudaginn 18. nóvember frá kl. 13.00 til 17.00. Þar er ætlunin að líta örlítið yfir farinn veg, en fyrst og fremst að horfa til framtíðar og viðra þá möguleika og tækifæri sem liggja grafin í íslenskum fornleifum.

Efni þingsins er: Fornleifavernd á Íslandi, kvöð eða kostur ? Þátttaka er ókeypis.

Drög að dagskrá

• Kl. 13.00

• Opnun, Kristín Huld Sigurðardóttir

• Ávarp: Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

• Fundarstjóri, leikreglur ofl

• Gildi fornleifaverndar fyrir íslenskt samfélag.

Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður
Fornleifaverndar ríkisins

• Umgengni við land og sögu, skyldur og ávinningur framkvæmdaaðila. Helgi Jóhannesson/
Landsvirkjun

• Frá Ingólfi til Bjarkar, þýðing menningarsögunnar fyrir ferðaþjónustu. Ólöf Ýrr Atladóttir
ferðamálastjóri

• ”Norsk Kulturminnefond – en suksesshistorie!

Kan noen av erfaringene ha overføringsverdi til Island?” Jon Suul forstjóri hjá Norsk

• Kl. 15.00

• Kaffihlé

• Kl. 15.20

• Umræður

• Kl. 16.50

• Deginum lokað, Kristín Huld Sigurðardóttir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband