Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Gildi loftmynda í fornleifarannsóknum

Meistarafyrirlestur í landfræði

Gildi loftmynda í fornleifarannsóknum
15. desember klukkan 15:00, Oddi, stofa 101

Lilja Laufey Davíðsdóttir

Rannsóknir sýna að innrauðar litloftmyndir hafa yfirburði yfir aðrar gerðir loftmynda.
Þrátt fyrir það hafa þær lítið verið notaðar í fornleifarannsóknum og gildi þeirra nánast ekkert verið kannað.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða möguleika innrauðra mynda fyrir fornleifarannsóknir og til samanburðar voru notaðar venjulegar litloftmyndir.

Niðurstöður sýndu að ekki aðeins voru innrauðar litloftmyndir betri til að koma auga á fornminjar, hvort sem um er að ræða minjar sem áður hafa fundist á vettvangi, þær sem ekki hafa verið staðsettar eða alls óþekktar minjar, heldur nýttust þær einnig til þess að túlka hlutverk fornminja og til að skoða breytingar á búsetumynstri.

Leiðbeinendur: Guðrún Gísladóttir prófessor og Ragnheiður Traustadóttir aðjúnkt og stjórnandi Hólarannsóknarinnar.

Prófdómari/fulltrúi deildar: Ingibjörg Jónsdóttir dósent


http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlesturgildi_loftmynda_i_fornleifarannsoknum


Aðalfundur Fornleifafræðingafélags Íslands 2011

Aðalfundur Fornleifafræðingafélags Íslands verður haldinn miðvikudaginn 28. desember 2011, kl. 16:00 í herbergi 309 á 3ju hæð í Gimli, Háskóla Íslands.


Dagskrá aðalfundar verður sem hér segir:


1)    skýrsla liðins árs

2)    lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins

3)    lagabreytingar. Tillögu að lagabreytingu má nálgast hér að neðan.

4)    inntaka nýrra félagsmanna

5)    kosning stjórnarmanna

6)   ályktanir bornar undir fundinn

7)   önnur mál

 
Stjórn FFÍ

 

Tillaga að lagabreytingum Fornleifafræðingafélags Íslands

Lögð fyrir aðalfund 2011


Lögð er til breyting á 6. grein laga FFÍ, sem fjallar um Ólafíu, rit félagsins. Lagt er til að stjórn hvers heftis verði í höndum ritstjóra auk tveggja ritnefndarmanna sem munu verða ritstjóra innan handar við útgáfu heftisins. Auk þessa er gert ráð fyrir yfirvofandi breytingu á fjármögnun heftisins.

Tillagan er svohljóðandi eftir breytingu:

Fornleifafræðingafélag Íslands gefur út ritið Ólafíu. Stefnt skal að útgáfu þess einu sinni ári. Hvert hefti er tileinkað ákveðnu þema og birtir efni því tengdu í formi fræðigreina eða ritgerða. Ritstjóri hvers heftis er kosinn á aðalfundi hvert ár auk tveggja fulltrúa í ritnefnd sem verða ritstjóra innan handar við útgáfu heftisins. Ritið skal vera ritrýnt þegar þema þess miðast við birtingu stakra greina, sem ekki hafa verið gefnar út áður. Stefnan með útgáfu Ólafíu er að gefa fólki kost á að lesa öflugt og vandað fræðirit um fornleifafræði. Efni þess skal að öllu jöfnu vera ritað á íslensku til þess að skapa hefð fyrir notkun hugtaka í fornleifafræði á íslensku. Heimilt er að birta greinar í því á öðrum tungum. Ólafía er gefin út fyrir fé úr styrktarsjóði Ólafíu Einarsdóttur, sjálfsaflafé í formi styrkja, sölutekna og annarra framlaga.

Aðalfundur FFÍ

Ágætu félagsmenn,

 
Nú líður að lokum árs og því er aðalfundur á næsta leiti. Viljum við því benda þeim sem hafa tillögur að lagabreytingum að koma þeim til stjórnar hið fyrsta svo hægt sé að auglýsa þær með aðalfundarboði.

Einnig er komið að innheimtu á félagsgjöldum fyrir þetta árið. Sem fyrr eru þau 2.000 kr. fyrir aðalfélaga og 1.000 kr. fyrir aukafélaga og skulu leggjast inn á reikning 0101-05-268166, kt. 510399-3159, með skýringunni gjöld.11.

Með kveðju,
Stjórnin

Mannvist - sýnisbók um fornleifar

Bókin Mannvist – sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur fornleifafræðing er komin út hjá Opnu.

Bókin opnar heim fornleifa fyrir leikum og lærðum. Birna og samverkamenn hennar settu sér það markmið að beina sjónarhorninu frá helstu sögustöðum og valdasetrum að hversdagslegri minjum um daglegt líf almennings. Fornar leifar á Íslandi er að finna á ólíklegustu stöðum úti um allt land og frá ýmsum aldursskeiðum því ekki eru allar fornleifar svo ýkja gamlar, samkvæmt skilgreiningu laganna er miðað við 100 ár. Bókin er búin fjöldamörgum ljósmyndum sem styðja við textann.

Birna Lárusdóttir er fornleifafræðingur og hefur starfað hjá Fornleifastofnun Íslands frá árinu 1999. Hún er aðalhöfundur þessa mikla verks og jafnframt ritstjóri þess. Aðrir höfundar efnis eru Adolf Friðriksson, Árni Hjartarson, Bjarni F. Einarsson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Guðmundur J. Guðmundsson, Hildur Gestsdóttir, Orri Vésteinsson og Þóra Pétursdóttir.

Umræðufundur um endurgerð, viðhald og varðveislu fornleifa

Fornleifavernd ríkisins boðar til fundar föstudaginn  6. janúar 2012, kl. 13.00 og verður umræðuefnið endurgerð, viðhald og varðveisla  fornleifa. Frummælandi verður Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins.
Þeir sem hafa áhuga á að sækja fundinn eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna sig á netfangið fornleifavernd@fornleifavernd.is. Stefnt er að því að halda fundinn hér í kjallaranum að Suðurgötu 39 í Reykjavík. Reynist þátttakan fjölmennari en fundarherbergið í kjallarnum ræður við, munum við flytja okkur um set og tilkynna nýjan fundarstað með góðum fyrirvara.
Vonumst eftir að sjá sem flesta,

Kristín Huld Sigurðardóttir PhD, MPA

Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins/General Director -  The Archaeological Heritage Agency of Iceland


Bréf til Fornleifaverndar ríkisins um stöðu friðlýsinga

Kristín Huld Sigurðardóttir

Fornleifavernd ríkisins

Suðurgötu 39

101 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 24. nóvember 2011

 

Efni: Friðlýstar fornleifar og leyfisveitingar

 

Nýlega boðaði Fornleifafræðingafélag Íslands (FFÍ) til almenns félagsfundar þar sem staða friðlýsinga var rædd. Fundarmenn urðu sammála um að stjórn félagsins leitaði  eftir upplýsingum hjá Fornleifavernd ríkisins um stöðu friðlýstra fornleifa á Íslandi og hver stefna embættisins sé varðandi friðlýstar fornminjar, t.d. með opnum fyrirlestri þar sem starfsmenn Fornleifaverndar ríkisins færu yfir hversu mikið af friðlýstum fornleifum hefðu verið endurskoðaðar og hvort tilefni sé til að endurmeta friðlýsingu á einhverjum þeirra.

Á fundinum barst einnig í tal umfjöllun fjölmiðla um framkvæmdir ofan á friðlýstum fornleifunum í Þorláksbúð í Skálholti og þá greindi Dr. Bjarni F. Einarsson frá nýlegri synjun Fornleifaverndar ríkisins á uppgraftarleyfi vegna könnunarskurða í friðlýstar fornleifar að Böðmóðstungu í Holti í Skaftárhreppi. Félagsmönnum þykir ekki eðlilegt að leyfi sé veitt til framkvæmda ofan á friðlýstum fornleifum í Skálholti á sama tíma og leyfi til töku könnunarskurðar til að kanna aldur friðlýstra fornleifa að Böðmóðstungu er synjað. Bygging tilgátuhúss sem ekki byggir á fornleifarannsóknum nema að litlu leyti er heimiluð en fornleifafræðingi, með doktorspróf í greininni og langa uppgraftarreynslu á Íslandi, er synjað um leyfi til könnunar á fornleifum sem eru í nokkurri hættu vegna ágangs vatns úr nærliggjandi á sem brýtur reglulega úr bökkum sínum. Ekki verður séð að hér sé gætt samræmis.

Félagið getur ekki séð að leyfið til framkvæmda við endurbyggingu Þorláksbúðar samræmist Þjóðminjalögum nr. 107 frá 2001, IV: kafla 10.-12. grein og lýsir jafnframt andstöðu sinni við framkvæmdirnar og leyfisveitingu Fornleifaverndar ríkisins.

Vegna ofangreindra mála vill FFÍ skora á Fornleifavernd ríkisins að birta upplýsingar um uppgraftarleyfi veitt sumarið 2011 hið allra fyrsta á heimasíðu sinni. Jafnframt þætti félaginu eðlilegt að á heimasíðu Fornleifaverndar ríkisins birtist einnig upplýsingar um þær umsóknir sem synjað er um leyfi til fornleifarannsókna sem og aðrar leyfisveitingar Fornleifaverndar ríkisins, t.a.m. þegar leyfi er gefið til framkvæmda á eða við friðlýstar fornleifar. Félagið skorar jafnframt á Fornleifavernd ríkisins að birta umsóknir um uppgraftarleyfi í heild sinni ásamt fylgigögnum á heimasíðu sinni og að birta á heimasíðu sinni þær skýrslur sem gerðar eru á vegum embættisins og starfsmanna þess.

 

 

 

Fyrir hönd Fornleifafræðingafélags Íslands

 

 

______________________________

Sindri Ellertsson Csillag

Formaður

 

Afrit:

Menningar- og menntamálaráðuneytið

 


Bréf FFÍ til Fjárlaganefndar Alþingis


Fjárlaganefnd Alþingis

Skrifstofa Alþingis, Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 24. nóvember 2011

 

Efni: Fjárveitingar til fornleifarannsókna á fjárlögum 2012.

 

Undirritaður, formaður Fornleifafræðingafélags Íslands, vill gera eina athugasemd við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012. Athugasemdirnar snerta annan kafla frumvarpsins sem fjallar um Mennta- og Menningarmálaráðuneytið, liði 901 og 983.

 

Ég vil gera þá athugasemd að heildarskerðing á fjármagni sem veitt er til fornleifarannsókna er 64% á milli áranna 2011 og 2012. Heildarfjárveiting til fornleifarannsókna fyrir árið 2011 var 46,9 m.kr. sem skiptust þannig að undir lið 983 Ýmis fræðastörf var veitt 17,2 m.kr. í Fornleifasjóð auk sérstakrar fjárveitingar vegna áframhaldandi rannsókna á Skriðuklaustri upp á 13,5 m.kr. Undir liðnum 901 Fornleifavernd ríkisins var veitt til ýmissa verkefna 16,2 m.kr. sem skiptust þannig: Byggðasafnið í Skagafirði, Tyrfingsstaðaverkefnið, 0,5 m.kr., Fornleifauppgröftur við Kolkuós, 2 m.kr., Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna, 2 m.kr., Fornleifarannsóknir á Hólum í Hjaltadal, 2 m.kr., Fornleifarannsóknir í Suður-Þingeyjarsýslu, 4 m.kr., Rannsóknir á menningarsögulegum minjum í Hringsdal, 1,2 m.kr., Reykjanesbær, fornleifarannsóknir í Höfnum, 1,2 m.kr., Úrvinnsla fornleifarannsókna í Skálholti, 2 m.kr. og Þorláksbúð í Skálholti, 1,2 m.kr.

 

Á fjárlögum fyrir árið 2012 er aðeins ráðgert að Fornleifasjóður standi eftir en hann mun skerðast um 0,4 m.kr. Heildarskerðing á fjármagni til fornleifarannsókna er því 30,1 m.kr. sem samsvarar skerðingu um 64%. Ég hef fullan skilning á niðurskurðarkröfu ríkisins og er sammála þeirri reglu sem farin er í fjárlagafrumvarpi 2011 að styrkja eingöngu Fornleifasjóð sem er vísindalegur samkeppnissjóður en ekki þau verkefni sem standa fyrir utan sjóðinn. Ráðgert er að ekkert verkefnanna undir liðnum 901 fái áframhaldandi fjárveitingu auk þess sem sérstök fjárveiting vegna fornleifarannsókna á Skriðuklaustri undir lið 983 dettur út. Fyrir hönd félagsins geri ég þá athugasemd að skerðing á fjármagni um 64% í heildina þýðir að mörg stöðugildi í fornleifafræði, sem sum hver eru algerlega háð þessum styrkjum, hverfa með fyrirsjáanlegu hruni fræðigreinarinnar og auknum kostnaði ríkisins í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.

 

Fullur skilningur er hjá fornleifafræðingum á því að fjármagn til rannsókna skerðist til að mæta markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum en 64% niðurskurður á milli ára er miklu meira heldur en aðrar fræðigreinar þurfa að búa við. Verði þessi skerðing að veruleika mun hún valda fræðigreininni skaða sem seint verður bættur. Nú er tækifæritil þess að efla Fornleifasjóð sem er eini samkeppnissjóður á Íslandi eyrnamerktur fornleifafræði. Með því að efla Fornleifasjóð er hægt að búa þannig um hnútana að hæfustu umsóknirnar, metnar á faglegum grundvelli, fái framgöngu. Aðeins þannig verður fræðigreininni og því sem hún skilar til samfélagsins forðað frá glötun.

 

 

 

Fyrir hönd Fornleifafræðingafélags Íslands

 

 

______________________________

Sindri Ellertsson Csillag

Formaður

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband