Spin me a Yarn, Weave Me a Tale: Textiles, Women and Cloth in Iceland, AD 874-1800

Þriðjudaginn 31. janúar kl. 12:05 mun Michèle Hayeur Smith frá Haffenreffer safninu við Brown háskóla í Bandaríkunum halda hádegisfyrirlestur í Þjóðminjasafni Íslands um textíl, konur og fatnað á Íslandi á árunum 874-1800. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Fræðslufyrirlestrar Þjóðminjasafnsins“.

Fyrirlesturinn er haldinn á ensku. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Ólíkt því sem þekkist víðast hvar í heiminum hefur mikið og fjölbreytt safn forna textíla varðveist á Íslandi. Þótt lítið sé búið að rannsaka þá enn, þá innihalda þeir mikilvægar upplýsingar um Ísland fyrr á öldum og þá sérstaklega um hvaða hlutverk konur léku í hefðbundnu íslensku samfélagi og efnahagskerfi. Í erindinu verða kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar sem stendur yfir á íslenskri vefnaðarvöru útfrá málefnum kynjanna, vefnaðartækni, viðskiptum og klæðnaði allt frá landnámi  og fram á 19. öld.

Michèle Hayeur Smith er fornleifafræðingur og hefur unnið að rannsóknum á Íslandi og í Norður-Ameríku. Rannsóknir hennar hafa helst fjallað um efnismenningu, fatnað, líkamann og kynjamyndir. Hún hefur rannsakað skartgripi úr íslenskum kumlum og hvað megi lesa úr þeim varðandi stétt, stöðu og menningarlega sjálfsmynd fornmanna. Nýlegar rannsóknir Michèle snúa að framleiðslu og dreifingu vefnaðar á Íslandi frá landnámi til 19. aldar og munu vonandi varpa ljósi á áhrif kvenna á íslenskan efnahag, heimilishald, stjórnmál og menningu í aldanna rás.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband