Bréf til Fornleifaverndar ríkisins um stöðu friðlýsinga

Kristín Huld Sigurðardóttir

Fornleifavernd ríkisins

Suðurgötu 39

101 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 24. nóvember 2011

 

Efni: Friðlýstar fornleifar og leyfisveitingar

 

Nýlega boðaði Fornleifafræðingafélag Íslands (FFÍ) til almenns félagsfundar þar sem staða friðlýsinga var rædd. Fundarmenn urðu sammála um að stjórn félagsins leitaði  eftir upplýsingum hjá Fornleifavernd ríkisins um stöðu friðlýstra fornleifa á Íslandi og hver stefna embættisins sé varðandi friðlýstar fornminjar, t.d. með opnum fyrirlestri þar sem starfsmenn Fornleifaverndar ríkisins færu yfir hversu mikið af friðlýstum fornleifum hefðu verið endurskoðaðar og hvort tilefni sé til að endurmeta friðlýsingu á einhverjum þeirra.

Á fundinum barst einnig í tal umfjöllun fjölmiðla um framkvæmdir ofan á friðlýstum fornleifunum í Þorláksbúð í Skálholti og þá greindi Dr. Bjarni F. Einarsson frá nýlegri synjun Fornleifaverndar ríkisins á uppgraftarleyfi vegna könnunarskurða í friðlýstar fornleifar að Böðmóðstungu í Holti í Skaftárhreppi. Félagsmönnum þykir ekki eðlilegt að leyfi sé veitt til framkvæmda ofan á friðlýstum fornleifum í Skálholti á sama tíma og leyfi til töku könnunarskurðar til að kanna aldur friðlýstra fornleifa að Böðmóðstungu er synjað. Bygging tilgátuhúss sem ekki byggir á fornleifarannsóknum nema að litlu leyti er heimiluð en fornleifafræðingi, með doktorspróf í greininni og langa uppgraftarreynslu á Íslandi, er synjað um leyfi til könnunar á fornleifum sem eru í nokkurri hættu vegna ágangs vatns úr nærliggjandi á sem brýtur reglulega úr bökkum sínum. Ekki verður séð að hér sé gætt samræmis.

Félagið getur ekki séð að leyfið til framkvæmda við endurbyggingu Þorláksbúðar samræmist Þjóðminjalögum nr. 107 frá 2001, IV: kafla 10.-12. grein og lýsir jafnframt andstöðu sinni við framkvæmdirnar og leyfisveitingu Fornleifaverndar ríkisins.

Vegna ofangreindra mála vill FFÍ skora á Fornleifavernd ríkisins að birta upplýsingar um uppgraftarleyfi veitt sumarið 2011 hið allra fyrsta á heimasíðu sinni. Jafnframt þætti félaginu eðlilegt að á heimasíðu Fornleifaverndar ríkisins birtist einnig upplýsingar um þær umsóknir sem synjað er um leyfi til fornleifarannsókna sem og aðrar leyfisveitingar Fornleifaverndar ríkisins, t.a.m. þegar leyfi er gefið til framkvæmda á eða við friðlýstar fornleifar. Félagið skorar jafnframt á Fornleifavernd ríkisins að birta umsóknir um uppgraftarleyfi í heild sinni ásamt fylgigögnum á heimasíðu sinni og að birta á heimasíðu sinni þær skýrslur sem gerðar eru á vegum embættisins og starfsmanna þess.

 

 

 

Fyrir hönd Fornleifafræðingafélags Íslands

 

 

______________________________

Sindri Ellertsson Csillag

Formaður

 

Afrit:

Menningar- og menntamálaráðuneytið

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband