Bréf FFÍ til Fjárlaganefndar Alþingis


Fjárlaganefnd Alþingis

Skrifstofa Alþingis, Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 24. nóvember 2011

 

Efni: Fjárveitingar til fornleifarannsókna á fjárlögum 2012.

 

Undirritaður, formaður Fornleifafræðingafélags Íslands, vill gera eina athugasemd við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012. Athugasemdirnar snerta annan kafla frumvarpsins sem fjallar um Mennta- og Menningarmálaráðuneytið, liði 901 og 983.

 

Ég vil gera þá athugasemd að heildarskerðing á fjármagni sem veitt er til fornleifarannsókna er 64% á milli áranna 2011 og 2012. Heildarfjárveiting til fornleifarannsókna fyrir árið 2011 var 46,9 m.kr. sem skiptust þannig að undir lið 983 Ýmis fræðastörf var veitt 17,2 m.kr. í Fornleifasjóð auk sérstakrar fjárveitingar vegna áframhaldandi rannsókna á Skriðuklaustri upp á 13,5 m.kr. Undir liðnum 901 Fornleifavernd ríkisins var veitt til ýmissa verkefna 16,2 m.kr. sem skiptust þannig: Byggðasafnið í Skagafirði, Tyrfingsstaðaverkefnið, 0,5 m.kr., Fornleifauppgröftur við Kolkuós, 2 m.kr., Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna, 2 m.kr., Fornleifarannsóknir á Hólum í Hjaltadal, 2 m.kr., Fornleifarannsóknir í Suður-Þingeyjarsýslu, 4 m.kr., Rannsóknir á menningarsögulegum minjum í Hringsdal, 1,2 m.kr., Reykjanesbær, fornleifarannsóknir í Höfnum, 1,2 m.kr., Úrvinnsla fornleifarannsókna í Skálholti, 2 m.kr. og Þorláksbúð í Skálholti, 1,2 m.kr.

 

Á fjárlögum fyrir árið 2012 er aðeins ráðgert að Fornleifasjóður standi eftir en hann mun skerðast um 0,4 m.kr. Heildarskerðing á fjármagni til fornleifarannsókna er því 30,1 m.kr. sem samsvarar skerðingu um 64%. Ég hef fullan skilning á niðurskurðarkröfu ríkisins og er sammála þeirri reglu sem farin er í fjárlagafrumvarpi 2011 að styrkja eingöngu Fornleifasjóð sem er vísindalegur samkeppnissjóður en ekki þau verkefni sem standa fyrir utan sjóðinn. Ráðgert er að ekkert verkefnanna undir liðnum 901 fái áframhaldandi fjárveitingu auk þess sem sérstök fjárveiting vegna fornleifarannsókna á Skriðuklaustri undir lið 983 dettur út. Fyrir hönd félagsins geri ég þá athugasemd að skerðing á fjármagni um 64% í heildina þýðir að mörg stöðugildi í fornleifafræði, sem sum hver eru algerlega háð þessum styrkjum, hverfa með fyrirsjáanlegu hruni fræðigreinarinnar og auknum kostnaði ríkisins í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.

 

Fullur skilningur er hjá fornleifafræðingum á því að fjármagn til rannsókna skerðist til að mæta markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum en 64% niðurskurður á milli ára er miklu meira heldur en aðrar fræðigreinar þurfa að búa við. Verði þessi skerðing að veruleika mun hún valda fræðigreininni skaða sem seint verður bættur. Nú er tækifæritil þess að efla Fornleifasjóð sem er eini samkeppnissjóður á Íslandi eyrnamerktur fornleifafræði. Með því að efla Fornleifasjóð er hægt að búa þannig um hnútana að hæfustu umsóknirnar, metnar á faglegum grundvelli, fái framgöngu. Aðeins þannig verður fræðigreininni og því sem hún skilar til samfélagsins forðað frá glötun.

 

 

 

Fyrir hönd Fornleifafræðingafélags Íslands

 

 

______________________________

Sindri Ellertsson Csillag

Formaður

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband