Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Fundur um ný lög um menningarminjar

Almennur félagsfundur um ný lög um menningarminjar og ályktun félagsins um þau verður haldinn mánudaginn 2. maí á Fornleifaræðistofunni Ægisgötu 10, 101 Reykjavík kl. 20:00.

Félagsmenn geta kynnt sér lögin á heimasíðu félagsins: http://www.ffi.blog.is/blog/ffi/entry/1157393/

Með kveðju,
Stjórnin.


Afmælisrit Fornleifastofnunar Íslands

Í tilefni af því að árið 2010 voru 15 ár liðin frá stofnun Fornleifastofnunar Íslands gefur stofnunin út vandað greinasafn, Upp á yfirborðið - Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði.  Bókin hefur að geyma margar liprar greinar um  afrakstur  helstu rannsókna Fornleifastofnunar síðustu ára. Á hún erindi til allra fróðleiksfúsra lesenda og ekki síst þeirra sem hafa áhuga á ferðalögum innanlands og vilja upplifa landið og menningarsögu þjóðarinnar á nýjan hátt frá sjónarhóli fornleifafræðinnar.

Bókin kostar aðeins 3990 kr. og hægt er að panta eintak með því að senda tölvupóst á netfangið ragnheidur@instarch.is eða í síma 551-1033.


Sumarstörf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur

Um helgina var kynnt átak ríksistjórnarinnar um sumarstörf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur. Að þessu sinni eru um 900 störf í boði. Þar á meðal eru nokkur störf við tengd fornleifafræði. Þar má meðal annars nefna störf tengd fornleifauppgröftum á Skriðuklaustri, Hólum og Kolkuósi, starf við verkefnið Gröf og dauði í 1150 ár, störf hjá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafni Íslands.

Fræðast má nánar um þau störf sem í boði eru hér.

Einnig má benda á fornleifafræðingum á þessa síðu.


Fyrirlesturinn Minjar undir malbiki

Nú er hægt að hluta á fyrirlestur Oddgeirs Ísaksen, Minjar undir malbiki, frá 14. apríl hér.

 


Eldjárn er komið út

Eldjárn, tímarit Kumls, félags fornleifafræðinema við Háskóla Íslands er komið út. Í tímaritinu eru greinar eftir Birnu Lárusdóttur, Orra Vésteinsson og Elínu Ósk Hreiðarsdóttur. Stuttir útdrættir eru úr BA-ritgerðum Jakobs Orra Jónssonar og Ástu Hermannsdóttur, mastersverkefni Sindra Ellertssonar Csillag, doktorsverkefni Oscars Aldred og viðtal við Ugga Ævarsson Minjavörð Suðurlands. Einnig er slegið á létta strengi í dálki Ráðagerðar Rangbrókar og skiptinemar í fornleifafræði á Norðurlöndunum segja lífsreynslusögur .

Hægt er að nálgast eintak hjá Sigurjónu Guðnadóttur (sig39@hi.is) ritstjóra Eldjárns.

Úthlutun úr Nýsköpunarsjóði námsmanna

Úthlutað hefur verið úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir sumarið 2011. Að þessu sinni hlutu einungis 27% þeirra verkefna sem sóttu um styrk. Líkt og flest undanfarin ár eru nokkur verkefni tengd fornleifafræði sem hlutu styrk. Nánari upplýsingar um úthlutunina má sjá hér.


Minjar undir malbiki. Fornleifaskráning í þéttbýli

Þriðji fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Fornleifafræðingafélags Íslands og Félags íslenskra fornleifafræðinga verður haldinn fimmtudaginn 14. apríl.

Fyrirlesturinn verður sem fyrr í kjallara húsnæðis Fornleifaverndar ríkisins, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík og hefst hann klukkan 20.00. Að þessu sinni mun Oddgeir Ísaksen, sem lauk M.A. prófi í fornleifafræði frá Háskóla Íslands nú í febrúar, flytja fyrirlestur sem byggir á mastersrannsókn hans og ber yfirskriftina:
 
Minjar undir malbiki.  Fornleifaskráning í þéttbýli
Mikill vöxtur hefur verið í fornleifaskráningu á Íslandi á undanförnum árum þó einkum á dreifbýlum svæðum í landinu. Þegar er litið til stöðu þessara mála í þéttbýli er nokkuð annað upp á teningnum. Yfirsýn minjaverndaryfirvalda yfir fornleifar á slíkum stöðum oft á tíðum ærið takmörkuð af ýmsum orsökum. Meðal annars henta hefðbundnar aðferðir fornleifaskráningar illa við skráningu minja í þéttbýli þar sem þær hafa einkum þróast út frá aðstæðum í dreifbýli þar sem sýnileiki minja er mun meiri enn á þéttbýlistöðu og aðgengi að heimildamönnum umtalsvert betra. 
Í erindinu verður greint frá skráningu sem gerð var á gömlum bæjarstæðum í Reykjavík í þeim tilgangi að prófa aðferðir sem talið var að gætu hentað betur aðstæðum í þéttbýli en hefðbundnar skráningaraðferðir. Grundvallarhugmyndin á bak við aðferðafræðina er sú að þótt erfitt sé að staðsetja einstakar fornleifar í þéttbýli þá sé samt sem áður hægt að áætla umfang þeirrar minjaheildar sem þær tilheyra og þannig skilgreina hættusvæði þar sem líkur eru á að minjar geti leynst í jörðu. Byggir það m.a á reynslu af fornleifaskráningu í dreifbýli sem hefur sýnt að flestar minjar er að finna í næsta nágrenni bæjarstæða, þ.e í gömlu heimatúnunum og því var talið að með því að skilgreina tún, utanum bæjarstæði Reykjavíkur, væri hægt að ná utanum stórt hlutfall landbúnaðarminja í borgarlandinu.  Einnig var reynt að leggja mat á ástand bæjarstæðanna út frá þeirri röskun sem sýnileg er á yfirborði eða þekkt er úr heimildum og verður jafnframt greint frá niðurstöðum þeirrar úttektar.


 
Eftir fyrirlesturinn verður opið fyrir spurningar og umræður.
Fyrirlesturinn er öllum er opinn og er vonandi að sem flestir sjái sér fært að mæta.


Breytingar á Þjóðminjalögum

Frumvarp að nýjum menningarminjalögum hefur verið lagt fram á Alþingi. Áætlað er að félagið hafi fund um lögin fljótlega og sendi í framhaldi frá sér ályktun.

Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér nýja frumvarpið í heild sinni ásamt nýjum safnalögum og lögum um Þjóðminjasafn Íslands og skilum á menningarverðmætum til annarra landa.

Frumvarp til laga um menningarminjar. 

Frumvarp til laga um Þjóðminjasafn Íslands. 

Frumvarp til safnalaga. 

Frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa. 

 

Umræður um lögin á Alþingi 7. apríl 2011. 


Kvöldspjall FFÍ fimmtudaginn 7. apríl

Næsta kvöldspjall félagsins verður haldið á Fornleifafræðistofunni fimmtudaginn 7. apríl kl. 20:00.

Tilefni fundarins er að ræða notkun og þýðingar á ýmsum hugtökum úr fornleifafræði, m.a. vegna útgáfu á nýju hefti af Ólafíu sem mun koma út bráðlega. M.a. verða tekin fyrir eftirfarandi hugtök:


site formation process

Flokkarnir infans, juvenile, adult, mature, senile

symmetrical archaeology

etnografic

passive

abstract (um hugmynd)

structure (t.d. félagsstrúktúr)

profeminic (prófemenísk?)

ritual


Félagsmenn geta einnig komið með uppástungur um heiti eða hugtök sem þarfnast íslenskrar þýðingar með því að senda okkur póst á netfangið: fornleifafraedingafelagid@gmail.com

Endlega skoðið í Orðfærakassa FFÍ!


Upptaka af fyrirlestrinum Stóriðja á Ströndum

Nú er hægt að nálgast upptöku af fyrirlestri Þóru Pétursdóttur, Stóriðja á Ströndum, sem hún hélt þann 11. mars sem hluta af fyrirlestraröð Fornleifafræðingafélags Íslands og Félags íslenskra fornleifafræðinga.

Hægt er að hlaða fyrirlestrinum niður hér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband