28.1.2011 | 13:00
Fyrirlestraröð Fornleifafræðingafélags Íslands og Félags íslenskra fornleifafræðinga
Fyrirlestraröð Félags íslenskra fornleifafræðinga og Fornleifafræðingafélags Íslands hefst næstkomandi fimmtudag (3. feb) og ber hún yfirskriftina Dreggjar dagsins: fornleifafræði hins nýliðna. Eins og nafnið bendir til verður athyglinni að þessu sinni beint að rannsóknum á sviði nútímafornleifafræði (frá 19.-20. öld) og sérstök áhersla lögð á nýjar og yfirstandandi rannsóknir masters- og doktorsnema á þessu sviði. Nánari dagskrá verður auglýst á næstu vikum en ráðgert er að halda fimm fyrirlestra um efnið fram á vor.
Fyrsti fyrirlesturinn í röðinni verður sem fyrr segir haldinn fimmtudaginn 3. febrúar, í kjallara húsnæðis Fornleifaverndar ríkisins, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík og hefst hann klukkan 20.00. Þá mun Ágústa Edwald, doktorsnemandi í fornleifafræði við Háskólann í Aberdeen í Skotlandi, flytja fyrirlestur sem ber yfirskriftina: Frá Íslandi til Nýja Íslands - Fornleifafræði fólksflutninga til Vesturheims
Verkefnið fjallar um fólksflutninga Íslendinga til Nýja Íslands í Manitobafylki í Kanada undir lok 19. aldar. Greint verður frá tveimur uppgröftum sem mynda kjarna verkefnisins og helstu niðurstöðum sem liggja fyrir. Uppgreftirnir fóru fram á bæjartóftum Hornbrekku á Höfðaströnd sumarið 2009 og á landnemabænum Víðivöllum við Íslendingafljót í Manitoba sumarið 2010. Í fyrirlestrinum verða helstu niðurstöður þessara tveggja uppgrafta dregnar saman og fjallað um hvernig fornleifafræðilegar aðferðir og kenningar geta varpað ljósi á Vesturferðirnar og þær breytingar sem urðu á íslensku samfélagi í Kanada og á Íslandi í kjölfar þeirra.
Eftir fyrirlesturinn verður opið fyrir spurningar og umræður.
Fyrirlesturinn er öllum er opinn og vonandi að sem flestir sjái sér fært að mæta.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.