Fyrirlestur á vegum Vitafélagsins

Staður og stund:

Sjóminjasafnið Víkin, Grandagarði 8, 101 Reykjavík

Laugardaginn 5. febrúar klukkan 11:00-13:00


Farandverkafólk og sjókonur fyrri alda

Á áttunda áratug síðustu aldar urðu viss straumhvörf í efnahagskerfi heimsins.  Hagvöxtur snarminnkaði, tekjur af framleiðslu og verslun drógust saman, atvinnuleysi gerði vart við sig. Það var verið að tæknivæða sjávarútveginn með skuttogarakaupum, byggja og endurnýja frystihús og endurskipuleggja vinnuferli í vinnslunni.  Íbúum smærri útgerðarstaða fækkaði stórlega. Fjölmenn kynslóð um tvítugt var að hleypa heimdraganum, og ekki aðeins á Íslandi. Ungar erlendar konur í hundraðatali áttu tímabundið greiða leið inn í þetta nýstárlega vinnuumhverfi. Sigurlaug Gunnlaugsdóttir, sagnfræðingur fjallar um farandverkafólk í sjávarútvegi og hagsveiflur á áttunda áratug.

"Róðu betur, kær minn karl" - Af sjókonum á 18. öld

Ragnhildur Bragadóttir, sagnfræðingur fjallar um sjósókn íslenskra kvenna á 18. og fyrri hluta 19. aldar.
Lýst er margvíslegum aðstæðum þeirra í byggðarlögum kringum landið, og einkum dvalið við eyjabyggðir og útnesja. Könnuð er aðbúð, samfélagsstaða, launakjör og afköst á umræddu skeiði. Sagt er allítarlega frá lífshlaupi nokkurra nafngreindra kvenna og einkum lýst auðkennum og örlögum tveggja kunnustu kvenna tímabilsins, Látra-Bjargar og Þuríðar formanns, sem voru einkennilega ólíkar að eðli og upplagi, en áttu það sammerkt að fara ekki troðnar slóðir og beygja aldrei kné sín fyrir neinum.

Önnur endaði ævina á sveit; hin varð hungurmorða á vergangi.
Fram kemur að konur sóttu sjóinn á stórum, opnum áraskipum, áttræðingum eða tíræðingum, og voru þrásinnis komnar á steypirinn. Þær voru yfirleitt mun verr búnar en karlarnir. Taldist til undantekninga að þær væru í brókum að neðan. Ætíð var lagt frá landi í góðu veðri, en það gat breyst í einu vetfangi. Ef logn var, varð að taka róður, 6-7 vikur sjávar (vika sjávar=7,5-9 km), til að komast á miðin, og liggja síðan 1-2 sólarhringa eftir því hversu fljóttekin veiðin var. Á vorvertíð 1724 fórust fjórir fiskibátar úr Höskuldsey og með þeim 18 manns, þar af 8 konur. Má af því ráða að í eyjaverstöðvum Breiðafjarðar hafi fiskibátar stundum verið mannaðir fast að því eins mörgum konum og körlum.

   Róðu betur, kær minn karl,
   kenndu ekki í brjósti' um sjóinn.
   Þótt harðara takirðu herðafall -
   hann er á morgun gróinn !
   Björg Einarsdóttir frá Látrum



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband