Heimildarmynd um bátasmíði




Almennar sýningar á heimildamyndinni Súðbyrðingur - saga báts hefjast 22. janúar og standa til 10. febrúar í Bíó Paradís við Hverfisgötuna.  Sýningartíma má sjá í dagblöðum og á alnetinu undir www.bioparadis.is (dagskrá vikunnar).


Fjórir menn taka sér fyrir hendur að smíða bát eftir Staðarskektunni, sem fúnað hefur í grasi í Reykhólasveit.  Samhliða því sem nýi báturinn tekur á sig mynd er sögð saga bátasmíða á Norðurlöndum.  Byrjað er á kilinum, sem þróaðist frá eintrjáningi steinaldar, og svo dýpkar frásögnin eftir því sem báturinn er byrtur, sagt frá skinnbátum bronsaldar og helluristum, fórnum á bátum og mönnum til ókunnra guða, en elsti súðbyrðingurinn sem vitað er um varðveittist á einum slíkum blótstað, sýnd hin glæstu skip víkingaaldar, sagt frá selveiðimönnum í Eystrasaltinu sem lögðust út á ísinn og sváfu í einkennilega löguðum bátum sínum, og áfram er smíðað, böndin og borðstokkarnir, og þá er komið til Færeyja þar sem keppt er í róðri í nýrri gerð af súðbyrðingum á Ólafsvöku.  Að lokum er báturinn klár og seglin saumuð og þá er sjósetning og siglt út á fjörðinn, til fortíðar smiðanna sjálfra, þar sem súðbyrðingar voru smíðaðir og notaðir  - heima.  
 
Báturinn er trúarlegt tákn. Í þessum ,,báti" sem kvikmyndin er, rúmast margt, svo sem handbragð, heiðindómur, verslunarsaga, veiði, dauði og hátíðir. Í gegnum báta og skip tengjast hættir og saga þeirra þjóða sem búa á Norðurlöndum.

Ásdís Thoroddsen leikstýrir og Hálfdán Theódórsson kvikmyndar.  Tónlistina semur Þórður Magnússon.  Steinþór Birgisson litgreinir og Gunnar Árnason blandar hljóð.  Smiðir eru Hafliði Aðalsteinsson, Eggert Björnsson, Hjalti Hafþórsson og Aðalsteinn Valdimarsson.  Myndin var tekin upp á Íslandi, Danmörku, Noregi, Færeyjum, Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi.  Framleiðendur eru Ásdís Thoroddsen og Fahad Falur Jabali á vegum Gjólu kvikmyndagerðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband