Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Afmælismálþing Fornleifaverndar ríkisins: Fornleifavernd á Íslandi, kvöð eða kostur ?

Um þessar mundir eru tíu ár frá því að Fornleifavernd ríkisins hóf störf. Stofnunin stendur á tímamótum og mun væntanlega verða hluti nýrrar minjavörslustofnunar frá áramótum 2013.  Vegna afmælisins og tímamótanna blæs Fornleifaverndin til þings í salnum Yale, á 2. h. á Hótel Sögu föstudaginn 18. nóvember frá kl. 13.00 til 17.00. Þar er ætlunin að líta örlítið yfir farinn veg, en fyrst og fremst að horfa til framtíðar og viðra þá möguleika og tækifæri sem liggja grafin í íslenskum fornleifum.

Efni þingsins er: Fornleifavernd á Íslandi, kvöð eða kostur ? Þátttaka er ókeypis.

Drög að dagskrá

• Kl. 13.00

• Opnun, Kristín Huld Sigurðardóttir

• Ávarp: Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

• Fundarstjóri, leikreglur ofl

• Gildi fornleifaverndar fyrir íslenskt samfélag.

Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður
Fornleifaverndar ríkisins

• Umgengni við land og sögu, skyldur og ávinningur framkvæmdaaðila. Helgi Jóhannesson/
Landsvirkjun

• Frá Ingólfi til Bjarkar, þýðing menningarsögunnar fyrir ferðaþjónustu. Ólöf Ýrr Atladóttir
ferðamálastjóri

• ”Norsk Kulturminnefond – en suksesshistorie!

Kan noen av erfaringene ha overføringsverdi til Island?” Jon Suul forstjóri hjá Norsk

• Kl. 15.00

• Kaffihlé

• Kl. 15.20

• Umræður

• Kl. 16.50

• Deginum lokað, Kristín Huld Sigurðardóttir

Fyrirlestur Dr. Corneliusar Holtorf

Hægt er að hlusta á eða hala niður fyrirlestri Dr. Corneliusar Holtorf við Linnæus University í Kalmar frá 3. nóvember 2011 hér.

Einnar viku námskeið á Ísafirði um vernd og nýtingu strand- og neðansjávarminja

Menningarminjar finnast ekki eingöngu á þurru landi; hafsbotninn er einnig ríkur af þeim. Sokkin skipsflök bera hljóðlátan vitnisburð um hamfarir fyrri tíma – en einnig um sögu, efnismenningu, sjósókn og viðskipti. Sjávarsíðan geymir minjar um nytjar og náttúruvit þeirra sem þar höfðust við. 

Í þessu vikunámskeiði verða minjar og menningararfur sjávarsíðunnar, ofan og neðan hafflatar, í brennidepli. Farið verður yfir eðli þeirra, alþjóðlegar aðferðir við skrásetningu og varðveislu (ekki síst með tilliti til hækkunar sjávarborðs) og þann lærdóm sem hægt er að draga af minjum og menningararfi í sjó og við strendur. 

Námskeiðið er kennt á ensku og er á meistarastigi. Kennari er Brad Barr, ráðgjafi hjá Office of National Marine Sanctuaries í Bandaríkjunum og doktorsnemi við Háskólann í Alaska. Gestafyrirlesari er Ragnar Edwardsson. Þetta er í fimmta sinn sem Brad Barr kennir námskeið við Háskólasetur Vestfjarða og er hann vel kunnugur aðstæðum á Íslandi. Glöggt er gests augað! 

Tími: 28.11.2011-02.12.2011 

Frekari upplýsingar um forkröfur, áfangalýsingu, hæfniviðmið, vinnuálag, kostnað og skráningu er að finna á síðu námskeiðsins á vefsíðu Háskólaseturs Vestfjarða, www.uwestfjords.is. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir í netpósti á dagny@uwestfjords.is 

Athugið að innritaðir nemendur við íslenska ríkisháskóla greiða aðeins umsýslugjald. 

Námskeiðið er kennt í staðnámi.



Spjallkvöld FFÍ "Friðlýstar fornleifar"

Fyrsta spjallkvöld haustins verður haldið á kaffihúsinu Babalú, Skólavörðustíg 22a, n.k. þriðjudag, þ. 15. nóvember kl 20:00. Til að fylgja eftir vel heppnuðum fyrirlestri dr. Cornelius Holtorf er tilvalið að ræða stuttlega um friðlýsingar á fornleifum, tilgang þeirra og markmið.

Vonumst til að sjá sem flesta!

Með kveðju, Stjórnin.

Forvörður - Þjóðminjasafn Íslands

Forvörður - Þjóðminjasafn Íslands - Reykjavík - 201111/006

3/11/2011

Þjóðminjasafn Íslands

 

Þjóðminjasafn Íslands óskar eftir að ráða forvörð með sérhæfingu í fornleifaforvörslu.

Um er að ræða tímabundna ráðningu til 6 mánaða frá ársbyrjun 2012.

Starfslýsing
Starfið felst í forvörslu gripa sem koma upp við fornleifarannsóknir. Um er að ræða styrkjandi forvörslu forngripa og fornleifa úr lífrænum og ólífrænum efnum og merkingar þeirra. Auk þess tekur forvörður þátt í verkefnum í fyrirbyggjandi forvörslu (pökkun, frágangur gripa í geymslum, eftirlit með umhverfi o.fl.), undirbúningsvinnu vegna sýninga, gerð fræðsluefnis um forvörslu o.þ.h..

Menntun og reynsla
Auglýst er eftir forverði með menntun, þjálfun og reynslu í forvörslu forngripa og annarra safngripa
(kulturhistorisk konserveringstekniker/object conservator) með M.Sc. eða B.Sc. próf í forvörslu.

Launakjör
Um launakjör fer samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Næsti yfirmaður
Næsti yfirmaður er sviðstjóri rannsókna- og varðveislusviðs en fagstjóri forvörslu hefur umsjón með verkefnum forvarða.

Umsóknafrestur
Umsóknarfrestur er til og með 1. desember 2011. Skulu umsóknir með ferilskrá, afritum prófskírteina og meðmælum eða upplýsingum um meðmælendur berast skrifstofu safnsins að Suðurgötu 43, 101 Rvk, merkt “forvarsla”.  Við ráðningar í störf er tekið mið af jafnréttisáætlun stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar veita Anna Lísa Rúnarsdóttir, sviðstjóri rannsókna- og varðveislusviðs
(anna.lisa@thjodminjasafn.is), s. 5302200.

Starfsmaður taki þátt í því að Þjóðminjasafn Íslands nái markmiðum sínum sem vísinda- og
þjónustustofnun. Starfsmaður leggi áherslu á góða þjónustu og ráðgjöf, fagleg og ábyrg vinnubrögð og jákvætt skapandi andrúmsloft á vinnustað.


Rannsóknarstaða dr. Kristjáns Eldjárns - Þjóðminjasafn Íslands

Rannsóknarstaða dr. Kristjáns Eldjárns - Þjóðminjasafn Íslands - Reykjavík - 201110/066

27/10/2011

Þjóðminjasafn Íslands

 

Við Þjóðminjasafn Íslands er sérstök rannsóknarstaða til rannsókna á sviði þjóðminjavörslu, tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands.

Staðan er auglýst til eins árs og er ætluð fræðimönnum sem sinna rannsóknum á íslenskum þjóðminjum eða öðrum þáttum íslenskrar menningarsögu sem falla undir starfssvið Þjóðminjasafns Íslands. Rannsóknaverkefnum sem unnið er að í rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns er ætlað að efla rannsóknastarfsemi Þjóðminjasafns Íslands almennt. Við ráðningu í stöðuna er m.a. tekið mið af rannsóknastefnu Þjóðminjasafnsins og kemur til greina að tengja sjálfstæða rannsókn við stór rannsóknaverkefni sem þegar er unnið að innan safnsins.

Fræðimaður skal senda inn umsókn, þar sem verkefnið er vandlega skilgreint og hvernig það verði til að efla menningarsögulegar rannsóknir. Verkefnið skal skilgreint sem eins árs verkefni. Umsókn skal fylgja greinargerð um menntun og reynslu af fræðistörfum.

Verkefni, eins og það er afmarkað, lýkur með formlegum verklokum að rannsóknartíma liðnum. Stefnt skal að því að niðurstöður rannsókna verði birtar á viðurkenndum fræðilegum vettvangi en auk þess skulu þær kynntar með fyrirlestri, sýningu eða öðrum hætti innan Þjóðminjasafns Íslands.

Fræðimaður sem gegnir rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns hefur aðstöðu hjá og starfar innan rannsókna- og varðveislusviðs Þjóðminjasafnsins. Fræðimaður skal leggja sitt af mörkum til að efla rannsóknarstarf safnsins og taka þátt í að veita nýjum straumum inn í fræðilega umræðu.

Í reglugerð nr. 896/2006 segir: "Við Þjóðminjasafn Íslands skal vera sérstök rannsóknarstaða, tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands. Staðan er ætluð fræðimönnum, er sinna rannsóknum á sviði íslenskrar menningarsögu sem fellur undir starfssvið Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjavörður ræður í stöðuna til allt að tveggja ára. Þjóðminjavörður ákvarðar um launakjör fræðimannsins, innan marka kjarasamninga og fjárheimilda. Fræðimaður skilar áfanga- eða rannsóknarskýrslum árlega. Skal stefnt að því, að niðurstöður rannsókna hans meðan hann gegndi stöðunni birtist á viðurkenndum vísindalegum vettvangi að ráðningartíma loknum. Skulu þær rannsóknarniðurstöður jafnframt varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands, eins þótt óbirtar séu."

Umsókn með verkefnislýsingu og ferilskrá sendist Þjóðminjasafni Íslands, Suðurgötu 43, 101 Reykjavík, fyrir 21.nóvember 2011. 

Upplýsingar eru veittar í síma 530 2200, eða í tölvupósti hjá Önnu Lísu Rúnarsdóttur sviðstjóra rannsókna- og varðveislusviðs (anna.lisa@thjodminjasafn.is) eða Önnu G. Ásgeirsdóttur sviðstjóra fjármála- og þjónustusviðs (anna@thjodminjasafn.is).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband