15.2.2011 | 14:25
Dósent og verkefnastjóri í fornleifafræði - Háskóli Íslands og Þjóðminjasafn Íslands - Reykjavík - 201102/024
Samhliða störf við Háskóla Íslands (HÍ) og Þjóðminjasafn Íslands (ÞJMS).
Hugvísindasvið Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands auglýsa laus til umsóknar samhliða störf dósents og verkefnastjóra í fornleifafræði frá 1. júlí 2011.
Störfin eru veitt til tveggja ára með möguleika á framlengingu. Sótt skal um bæði störfin þar sem þau verða veitt einum og sama umsækjandanum. Sameiginleg valnefnd HÍ og ÞJMS mun gera tillögu um það hvaða umsækjandi verður fyrir valinu á grundvelli heildarmats á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar ráðningu í hvort starf fyrir sig. Það er forsenda fyrir því að koma til álita við valið að viðkomandi uppfylli skilyrði vegna ráðningar í bæði störfin, annars vegar að áliti dómnefndar á grundvelli laga og reglna um Háskóla Íslands og hins vegar samkvæmt ráðningarferli Þjóðminjasafns Íslands.
Dósentinn annast kennslu á námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu á Þjóðminjasafni á rannsókna- og varðveislusviði.
Starf dósentsins er á vettvangi norrænnar fornleifafræði, með áherslu á miðaldarannsóknir. Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í fornleifafræði, og hafa birt rannsóknaniðurstöður sínar á ritrýndum vettvangi. Lögð er áhersla á að umsækjendur hafi reynslu af stjórnun fornleifarannsókna og af safnastörfum. Reynsla af kennslu og stjórnun á háskólastigi er mjög æskileg. Um starfsskyldur í starfi dósents fer eftir reglum HÍ, en starfsskyldur í starfi verkefnasstjóra í fornleifafræði fer eftir nánari ákvörðun þjóðminjavarðar.
Sá sem ráðinn verður er sameiginlegur starfsmaður HÍ og ÞJMS, en um er að ræða samanlagt 75 % starfshlutfall, þar sem 55 % er dósentstarf við Háskóla Íslands, en 20 % verkefnastjórastarf í fornleifafræði hjá Þjóðminjasafni Íslands. Viðkomandi hefur ráðningarsamning við hvora stofnun fyrir sig þar sem nánar er fjallað um starfsskyldur og verkefni í samræmi við samstarfssamning HÍ og Þjóðminjasafnsins frá 1. sep. 2010. Í báðum ráðningarsamningum er tekið fram að forsenda ráðningar í hvort starf um sig sé ráðning í samhliða starf á hinni stofnuninni.
Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009, sjá á vef HÍ.
Laun eru skv. kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.
Umsóknarfrestur er til og með 15. mars 2011.
Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Ennfremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögnum sem ekki er skilað rafrænt skal skila í þríriti til Vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6, 101 Reykjavík.
Öllum umsækjendum verður greint frá niðurstöðum dómnefndar og valnefndar og um ráðstöfun starfsins þegar sú ákvörðun liggur fyrir.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Óskar Einarsson rekstrarstjóri Hugvísindasviðs HÍ í síma 525-5236 eða á netfangi: oe@hi.is og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður í síma: 530-2200 eða á netfangi: margret@thjodminjasafn.is.
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun safnsins og skólans (sjá m.a.: www.jafnretti.hi.is).
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.