15.10.2010 | 11:31
Nýjustu fréttir úr Kolkuósi
Þriðjudaginn 19. október flytur Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur og aðjúnkt við Háskólann á Hólum í Hjaltadal, erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands um fornleifauppgröftinn í Kolkuósi. Ragnheiður er stjórnandi Hólarannsóknar og er uppgröfturinn í Kolkuósi talinn varpa ljósi á ástæður þess að biskupsstólnum var valinn staður á Hólum 1106.
Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og er öllum opinn.
Á sýningunni Endurfundir í Þjóðminjasafninu má sjá ýmsa forvitnilega forngripi frá Hólarannsókninni og er um hana fjallað i veglegri bók sem gefin var út í tengslum við sýninguna.
Hin forna meginhöfn Skagfirðinga við Kolkuós er talinn vera ástæðan fyrir því að valdamiðstöð Norðlendinga reis á Hólum. Hún hefur verið þaulskipulagt athafnasvæði með fjölda búða sem tengdust um götu eftir endilöngum tanga. Þarna hefur verið gott skipalægi og greinileg merki hafa fundist um líflega milliríkjaverslun, bæði með nauðþurftir og munaðarvöru.
Höfnin var í notkun frá landnámi fram á 16. öld að kostir hennar virðast hafa spillst auk þess sem veraldleg völd Hólabiskupa rýrnuðu.
Vegna ágangs sjávar er sáralítill jarðvegur eftir á klöppinni en fornleifafræðingar hafa náð undraverðum árangri í kapphlaupi við óblíð náttúruöflin frá árinu 2003.
Slóðin á nýja heimasíðu um uppgröftinn er http://holar.is/holarannsoknin/kolkuos/
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.