9.9.2010 | 11:16
Málþingið "Þróun menningar og framtíð Íslands"
Heimsþekktur þróunarfræðingur á málþingi um þróun menningar og framtíð Íslands.
Hinn virti þróunarfræðingur dr. David Sloan Wilson flytur aðalfyrirlestur á málþinginu "Þróun menningar og framtíð Íslands" sem haldið verður í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins miðvikudaginn 15. september kl. 12:10-15:00. Á málþinginu verður fjallað um menningu og mannlegt samfélag út frá kenningum Darwins og þróunarfræði og hefst það með hádegisfyrirlestri Wilsons.
Wilson er prófessor við Binghamptonháskóla í Bandaríkjunum og hefur ritað fjölda greina og bóka sem fjalla um þróunarfræði, einkum um hvernig hún getur nýst við ransóknir á mannlegu samfélagi. Meðal rita hans má nefna: Darwins Cathedral: Evolution, Religion and the Nature of Society (2002) og Evolution for Everyone: How Darwins Theory Can Change the Way We Think About Our Lives (2007).
Wilson er einna þekktastur fyrir kenningar sínar um náttúrulegt val í mörgum þrepum (multilevel selection theory) þar sem gert er ráð fyrir að náttúrulegt val nái ekki aðeins til einstaklinga heldur einnig til hópa einstaklinga. Þetta er fráhvarf frá þankagangi sem hefur verið ríkjandi um skeið í þróunarfræði en opnar um leið nýjar dyr að athugunum á samfélögum, bæði manna og annarra lífvera.
Mannleg samfélög er hægt að skoða sem þróunarfræðileg fyrirbæri sem stjórnast ekki aðeins af genum einstaklinganna heldur einnig af menningu. Menning og gen vinna þannig saman að mótun og þróun samfélaga og virka á margan hátt svipað. Þróun menningar gerist þó mun hraðar en genetísk þróun sem skýrir hvers vegna hraði þróunar hefur tekið risastökk með tilkomu samfélaga okkar.
Þessir nýju straumar í þróunarfræði ættu að vera áhugaverðir öllum þeim sem áhuga hafa á manninum og samfélögum hans því að þeir setja manninn í samhengi við grunnlögmál lífsins á jörðinni og tengja lífvísindi og mannvísindi saman með nýjum hætti. Hér er á ferðinni vaxtarbroddur rannsókna sem líklegt er að verði áberandi í ýmsum fræðigreinum á næstu áratugum.
Fyrirlestur Wilsons nefnist Understanding and Managing Cultural Change From an Evolutionary Perspective sem má þýða að skilja og stjórna menningarbreytingum frá sjónarhóli þróunarfræði. Innihaldi fyrirlestursins lýsir Wilson svo: Þróun er oft tengd við genetíska nauðhyggju og er teflt gegn lærdómi og menningu. Samt sem áður hafa hæfileikar manna til lærdóms og menningar komið fram við erfðaþróun og eru þeir um leið sjálfstæð og opin þróunarferli. Nýjar kenningar í þróunarfræði leitast við að sætta hið margþætta erfðaeðli mannshugans við hæfileika hans til takmarkalausra umbreytinga. Niðurstaðan er sú að nýr grundvöllur er að myndast fyrir fræðilegar rannsóknir á menningu og samfélagslegri stefnumótun. Gildir það jafnt um hið smáa, eins og að bæta umhverfi í einstökum borgarhverfum, og hið stóra, eins og að endurhugsa hagstjórn. Ætla má að efnið sé forvitnilegt fyrir Íslendinga sem eru að enduhugsa gildi sín og hagstjórn í kjölfar efnahagshruns.
Auk Wilsons munu nokkrir aðrir fræðimenn, flestir íslenskir, flytja stutt erindi á málþinginu þar sem þeir tengja þessa nýju nálgun í þróunarfræði við sín viðfangsefni. Þeir eru: Axel Kristinsson sagnfræðingur, Kristinn Pétur Magnússon erfðafræðingur, Magnús S. Magnússon mannvísindamaður, Skúli Skúlason líffræðingur, Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur, Yasha Hartberg líffræðingur og Þorvarður Árnason, náttúrufræðingur.
Málþingið verður að mestu haldið á ensku. Aðgangur er ókeypis og opinn öllum en stúdentar og fræðimenn í líf- og mannvísindum eru sérstaklega velkomnir.
Wilson mun einnig halda fyrirlestur í Háskólanum á Akureyri mánudaginn 13. september, kl. 12:00 í fyrirlestrasal N-102 (nýbyggingu).
Að komu Wilsons til Íslands og málþinginu standa Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og ReykjavíkurAkademían.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.