Ný heimasíða Fornleifafræðingafélags Íslands

Tekin hefur verið í gagnið ný heimasíða Fornleifafræðingafélags Íslands http://fornleifafraedingafelagid.wordpress.com/.

Héðan í frá verða ekki gerðar frekari breytingar eða uppfærslur þessari síðu.

 


Fyrirlestraröð FFÍ og FÍF Úr gnægtabúri úthaganna: sel og jaðarbyggð í íslenskri fornleifafræði

Annað fyrirlestrakvöldi félaganna er fimmtudaginn 9. febrúar kl. 20 í kjallara húsnæðis Fornleifaverndar ríkisins að Suðurgötu 39.

Fyrirlestrarnir að þessu sinni eru:

Albína Hulda Pálsdóttir – Hvað segir vettvangsskráning okkur um seljarústir?
Ásta Hermannsdóttir og Sindri Ellertsson Csillag - Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi

Félagsmenn, nemendur og áhugamenn um fornleifafræði eru hvattir til að mæta. 


Skrifstofumaður - Fornleifavernd ríkisins - Reykjavík

Fornleifavernd ríkisins óskar eftir að ráða skrifstofumann.

Ábyrgð og verksvið:

Í starfinu felst m.a. frágangur reikninga, skjalavistun, póstsendingar og eftirlit með ýmsum gögnum, símaþjónusta, aðstoð við fjárhagsgerð, móttaka viðskipavina og upplýsingagjöf, ljósritun, innkaup á rekstrarvörum og umsjón með fundarherbergi auk tilfallandi verkefna hverju sinni.


Menntunar-  og hæfniskröfur:

Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi haldgóða menntun og reynslu af sambærilegum störfum.

Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á íslensku jafnt töluðu sem rituðu máli. Færni í ensku og helst einu Norðurlandamáli er æskileg. Gerð er krafa um góða almenna tölvukunnáttu. Þekking á GoPro tölvukerfi og Oracle- fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins er æskileg.

Lögð er áhersla á skipuleg og fagleg vinnubrögð, þjónustulund og lipurð í mannlegum samskipum.

Um er að ræða 50% starf og er æskilegt að starfsmaðurinn geti hafið störf sem fyrst. Um launakjör fer samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Ekki er um sérstök umsóknareyðublöð að ræða. Umsókn með ferilskrá sendist Fornleifavernd ríkisins, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík eigi síðar en 1. mars n.k. Upplýsingar veitir Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður (kristinhuld@fornleifavernd.is) í síma 5556630.

Fornleifavernd ríkisins er stjórnsýslustofnun sem fer með umsýslu fornleifamála landsins í umboði mennta- og menningarmálaráðherra. Stofnunin er með starfsstöðvar á sjö stöðum á landinu. Hún veitir m.a. leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna og lætur eftir föngum skrá allar þekktar fornleifar. Fornleifavernd ríkisins starfar á grundvelli laga nr. 107/2001. Nánari upplýsingar um stofnunina má finna á vefslóðinni: http://www.fornleifavernd.is/.


Fyrsti spjallfundur 2012

Fyrsti spjallfund ársins verður haldinn þriðjudaginn 7. febrúar kl. 12 í stofu 422 í Árnagarði. Umræðuefnið verður nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands, hvert stefnir það, hvað er gott og hvað má bæta. Hvernig má kynna námið betur fyrir verðandi háskólanemum og væntanlegum atvinnurekendum.

Núverandi nemendur sérstaklega hvattir til að mæta.

Staðsetning; Árnagarði, stofa 422 kl. 12:00-13:00 7. febrúar 2012.


Spin me a Yarn, Weave Me a Tale: Textiles, Women and Cloth in Iceland, AD 874-1800

Þriðjudaginn 31. janúar kl. 12:05 mun Michèle Hayeur Smith frá Haffenreffer safninu við Brown háskóla í Bandaríkunum halda hádegisfyrirlestur í Þjóðminjasafni Íslands um textíl, konur og fatnað á Íslandi á árunum 874-1800. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Fræðslufyrirlestrar Þjóðminjasafnsins“.

Fyrirlesturinn er haldinn á ensku. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Ólíkt því sem þekkist víðast hvar í heiminum hefur mikið og fjölbreytt safn forna textíla varðveist á Íslandi. Þótt lítið sé búið að rannsaka þá enn, þá innihalda þeir mikilvægar upplýsingar um Ísland fyrr á öldum og þá sérstaklega um hvaða hlutverk konur léku í hefðbundnu íslensku samfélagi og efnahagskerfi. Í erindinu verða kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar sem stendur yfir á íslenskri vefnaðarvöru útfrá málefnum kynjanna, vefnaðartækni, viðskiptum og klæðnaði allt frá landnámi  og fram á 19. öld.

Michèle Hayeur Smith er fornleifafræðingur og hefur unnið að rannsóknum á Íslandi og í Norður-Ameríku. Rannsóknir hennar hafa helst fjallað um efnismenningu, fatnað, líkamann og kynjamyndir. Hún hefur rannsakað skartgripi úr íslenskum kumlum og hvað megi lesa úr þeim varðandi stétt, stöðu og menningarlega sjálfsmynd fornmanna. Nýlegar rannsóknir Michèle snúa að framleiðslu og dreifingu vefnaðar á Íslandi frá landnámi til 19. aldar og munu vonandi varpa ljósi á áhrif kvenna á íslenskan efnahag, heimilishald, stjórnmál og menningu í aldanna rás.


The Archaeology Graduate Seminar Series

The Archaeology Graduate Seminar Series continues and our next guest lecturer will be Michèle Hayeur Smith, research associate at the Haffenreffer Museum of Anthropology, Brown University, USA.
She will give a talk titled:


"Spin me a Yarn, Weave Me a Tale: Textiles, Women and Cloth in Iceland, AD
 874-1800"

Location: Room G 301 in Gimli (on University Campus), Sæmundargötu 10

Time: February 2nd, 5:30 – 6:30 pm


Fyrirlestrum frestað til 2. febrúar

Vegna ófærðar neyðumst við til að aflýsa fyrirlestrunum sem áttu að vera í kvöld.

Þess í stað munu þær Ragnheiður og Margrét flytja fyrirlestra sína á sama tíma eftir viku, þ.e. FIMMTUDAGINN 2. FEBRÚAR KLUKKAN 20.00.

Fyrirlestraröð FFÍ og FÍF Úr gnægtabúri úthaganna: sel og jaðarbyggð í íslenskri fornleifafræði

Fimmtudaginn 2. febrúar hefst ný fyrirlestraröð FFÍ og FÍF 2012 sem að þessu sinni ber yfirskriftina:

Úr gnægtabúri úthaganna: sel og jaðarbyggð í íslenskri fornleifafræði


Á næstu vikum munu 11 fræðimenn flytja fjölbreytileg erindi sem öll eiga það sameiginlegt að fjalla um nýlegar rannsóknir á seljum eða á býlum í úthögum - eða skilin þar á milli. Tveir til þrír fræðimenn
flytja fyrirlestra hvert kvöld og á eftir verða umræður og spurningar. Fyrirlestrarnir verða á miðvikudags- og fimmtudagskvöldum og hefjast klukkan 20.00. Þeir verða haldnir í kjallara húsnæðis Fornleifaverndar ríkisins að Suðurgötu 39.

Félagsmenn, nemendur og áhugamenn um fornleifafræði eru hvattir til að mæta.

Fimmtudaginn 2. febrúar (upphaflega 26. janúar en varð að fresta vegna veðurs)

Margrét Hallmundsdóttir - Hvað var kotið í Koti?: Hugleiðingar um notkun á íveruhúsi í landi Kots á Rangárvöllum
Ragnheiður Traustadóttir – Seljabúskapur í Urriðakoti

Fimmtudagurinn 9. febrúar
Albína Hulda Pálsdóttir – Hvað segir vettvangsskráning okkur um seljarústir?
Ásta Hermannsdóttir og Sindri Ellertsson Csillag - Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi

Miðvikudagurinn 22. febrúar
Guðrún Sveinbjarnadóttir - Seljalönd Reykholts
Egill Erlendsson – Seljalönd Reykholts

Miðvikudagur 28. mars:
Bjarni F. Einarsson - Vogur í Höfnum: Landnámsbýli eða veiðistöð?
Kristján Mímisson - Efnismenning jaðarbyggða

Miðvikudagurinn 25. apríl
Stefán Ólafsson - Býli eða sel?: Um rústaþyrpingar í Kelduhverfi
Orri Vésteinsson - Sagan um Selkollu: Hættur úthagans í íslenskri fornleifafræði
Lokaumræða


Vísindaferð Fornleifafræðingafélags Íslands og Fornleifafræðistofunnar

Árleg vísindaferð Fornleifafræðistofunnar og Fornleifafræðingafélags Íslands verður haldin á Fornleifafræðistofunni, Ægisgötu 10, föstudaginn 27. janúar kl. 19 og stendur fram eftir nóttu.
Áfengar veigar og snakk verða í boði á meðan endist.


Fornleifafræðiþátturinn "Grafið eftir gersemum" eftir Sólrúnu Ingu Traustadóttur verður sýndur og hefst sýningin milli kl. 19.30 og 20. Fleiri skemmtileg skemmtiatriði verða einnig síðar um kvöldið.


Þroskaðari fornleifafræðingar eru velkomnir en eru hvattir til að mæta eftir kl. 19.30.
Kuml sér um skráningu þeirra nemenda sem hyggjast mæta.

 

Allir velkomnir,


Ármann Guðmundsson formaður Fornleifafræðingafélags Íslands

Bjarni F. Einarsson Fornleifafræðistofunni


Auglýsing frá Fornleifasjóði

Fornleifasjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum skv. 24. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001. Úthlutunarreglur sjóðsins nr. 73/2004 eru birtar í Stjórnartíðindum og  á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis. Veittir verða styrkir til verkefna sem stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornleifum og forngripum. Á fjárlögum 2012 eru 32,9 m.kr. til ráðstöfunar. Umsóknarfrestur er til og með 15. febrúar 2012.

Við úthlutun ársins mun stjórn sjóðsins leggja áherslu á lokaúrvinnslu rannsóknarverkefna. Mælst er til að umsóknum fylgi ýtarleg verkefnislýsing þar sem gerð er grein fyrir fullnaðarfjármögnun og áætluðum rannsóknarlokum.  

Umsóknir, í fjórum eintökum, sendist stjórn fornleifasjóðs, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík.

Stjórn fornleifasjóðs 12.  janúar 2012


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband